Lántaka brúar bilið á milli fjárfestinga og sjóðstreymis

Fjármögnun leysir vandann

Til að leysa lausafjárvandann sem fjárfestingar skapa sækja fyrirtæki sér fjármögnun.

Fjármögnun getur átt sér stað hvort í formi eiginfjárframlags eða láns. Ef um eigið fé er að ræða kaupir aðili hlutafé sem útgefið er af félaginu. Væntingin er þá að fyrirtækið búi til næg verðmæti til að standa undir arðgreiðslum í framtíðinni eða þá að verðmæti hlutafésins aukist þannig að framlagið borgi sig.

Þegar um lán er að ræða leggur aðili fyrirtækinu til fjármuni gegn skuldbindandi loforði félagsins um fulla endurgreiðslu auk vaxta í framtíðinni.

Með því að fjármagna sig með þessum hætti getur fyrirtækið ráðstafað fjármagni til fjárfestinga án þess að lausafjárstaðan verði neikvæð. Fjármögnun gerir því fyrirtæki kleift að vaxa og skapa aukin verðmæti án þess að lausafjárstaðan komi í veg fyrir það.

Lántaka er oft betri valkostur

Af þessum tveimur fjármögnunarformum er lántaka oft betri valkostur fyrir eigendur fyrirtækis. Hún hefur eftirfarandi kosti:

1. Full stjórn á fyrirtækinu. Einn meginkostur lántöku er að eigendur halda fullri stjórn yfir félaginu. Þótt lánveitandi fjármagni félagið þá fær hann ekki ákvörðunarvald þegar kemur að rekstrinum. Nýr hluthafi verður hins vegar eigandi að fyrirtækinu og getur viljað hafa áhrif á rekstur þesss.

2. Frádráttur frá skatti. Vaxtagreiðslur til þeirra sem lána fyrirtækinu eru frádráttarbærar frá tekjuskattsstofni. Auk vaxtagreiðslna nær frádráttarheimildin einnig til allra gjalda og annars kostnaðar sem tengist lántökunni. Frádrátturinn eykur verðmæti félagsins sem minnkuðum skattgreiðslum nemur.

3. Fljótlegri og auðveldari. Lántaka er oft bæði fljótlegri og auðveldari fjármögnunarleið en hlutafjárútgáfa. Fjárfestar takmarka hlutafjárkaup gjarnan við nýsköpunarfyrirtæki með meiri háttar vaxtarmöguleika, eða þá stór og stöndug fyrirtæki þar sem auðveldara er að áætla bæði arðgreiðslur og framtíðarvirði hlutafjár.

Margir ólíkir valkostir eru í boði

Þegar eigendur hafa ákveðið að taka lán til að fjármagna starfsemi fyrirtækisins er næsta skref að ákveða í hvaða formi lántakan á að vera. Margar ólíkar tegundir lántöku standa fyrirtækjum til boða hérlendis. Hér má líta nokkrar af þeim algengustu.

Bankalán
Ef fyrirtæki hefur ákveðið langa og stöðuga rekstrarsögu getur verið í boði að fá fyrirtækjalán frá viðskiptabanka. Skilyrði geta fylgt, til dæmis um að laust fé fari ekki undir ákveðin mörk.

Samningur
Fyrirtæki getur samið við hvern sem er um að fá fjármuni að láni gegn því að greiða þá til baka síðar meir með vöxtum. Þetta er stundum tengdir aðilar eins og birgjar viðkomandi félags.

Veðlán
Ef fyrirtækið á verðmætar eignir getur það lagt þær að veði gegn láni hjá banka eða öðrum lánveitendum. Dæmi um slíkar eignir eru fasteignir, ökutæki, og framleiðslutæki.

Birgðafjármögnun
Fyrirtæki með verðmætar birgðir geta lagt þær að veði hjá fjármögnunar- fyrirtæki til að auka við laust fé. Lánið er þá yfirleitt endurgreitt þegar birgðirnar eru seldar.

Yfirdráttur
Flest fyrirtæki eru með yfirdráttar- heimild í sínum viðskiptabanka. Vextir eru þá einungis greiddir af þeim hluta heimildarinnar sem fyrirtækið notar hverju sinni.

Skuldabréfaútgáfa
Fyrirtæki selur skuldabréf til fjárfesta, annað hvort beint eða í gegnum kauphöll. Í skuldabréfinu eru skilmálar um fyrirkomulag endurgreiðslna.

Kreditkort
Með kreditkorti getur fyrirtæki keypt vörur og þjónustu án þess að greiða fyrir þær strax. Fyrirtækið fær þá fjármunina að láni fram að gjalddaga kreditkortareikningsins.

Kröfufjármögnun
Fyrirtæki sem gefur út reikninga getur lagt þá að veði og fengið laust fé á útgáfudegi. Lánið er síðan endurgreitt þegar reikningurinn er greiddur.

 

Þessi grein er hluti af þekkingarskjali sem ber heitið ‘Samanburður fjármögnunarleiða fyrir íslensk fyrirtæki’. Þú getur sótt skjalið í heild hér eða kynnt þér efni kaflanna hér að neðan:

Kröfufjármögnun sem valkostur

Mikilvæg atriði sem hafa ber í huga við lántöku

Lántökumöguleikar

Útfærsla Kríta á kröfufjármögnun