Skortur á lausu fé getur minnkað virði fyrirtækis

Laust fé er undirstaða rekstrar

Lausafjárstaða er einn mikilvægasti mælikvarðinn á heilbrigði í fyrirtækjarekstri. Laust fé er eldsneytið sem stendur undir rekstrinum og gerir fyrirtækinu kleift að halda úti starfsemi sinni.

Fyrirtæki notar laust fé til að greiða fyrir alla þá hluti sem þurfa að vera til staðar til að reksturinn geti haldið áfram. Þar má til dæmis nefna laun, launtengd gjöld, aðkeyptar vörur og þjónustu, aðföng, og skatta.

Ef laust fé fer undir eðlilega mörk lendir fyrirtækið fljótt í kröggum og getur ekki greitt fyrir þá hluti sem það þarf. Í versta falli getur það þýtt gjaldþrot, ef kröfuhafi fyrirtækisins krefst þess.

Til að koma í veg fyrir þetta og viðhalda jákvæðri lausafjárstöðu leitast fyrirtæki við að ná fram jákvæðu sjóðsstreymi. Jákvætt sjóðsstreymi þýðir að meira laust fé kemur inn í fyrirtækið heldur en fer út úr því.

Sjóðstreymi er birt árlega í ársreikningum fyrirtækja og sýnir þá breytingu á lausu fé á viðkomandi ári.

Fjárfestingar krefjast lausafjár

Allt framangreint liggur nokkuð beint við fyrir þá sem hafa reynslu af fyrirtækjarekstri. En þegar kemur að fjárfestingum geta málin flækst.

Flest fyrirtæki búa til verðmæti í gegnum fjárfestingar. Í því felst að fjármagn er bundið í ákveðinn tíma í þeirri væntingu að fjárbindingin skili sér í formi aukinna verðmæta síðar meir.

Fjárfestingar geta verið margvíslegar. Fyrirtæki geta fjárfest í tækjum, búnaði, aðstöðu og aðföngum til að nefna nokkur dæmi. En fjárfestingar eru víðtækari en það. Þegar fyrirtæki verja tíma og/eða kostnaði í verkefni sem skila ekki tekjum samstundis þá er það fjárfesting.

Dæmi um þetta er rannsóknir og vöruþróun, þjálfun starfsfólks, greiðslur til verktaka áður en verkefni lýkur, og svo mætti lengi áfram telja.

Lausafjárstaðan getur hins vegar í veg fyrir að fyrirtæki geti fjárfest. Þegar laust fé skortir til að standa undir bæði rekstrarútgjöldum og fjárfestingum geta arðbær viðskiptatækifæri tapast. Vaxtarhraði og verðmæti fyrirtækisins dregst þá hvort tveggja saman.

Þessi grein er hluti af þekkingarskjali sem ber heitið ‘Samanburður fjármögnunarleiða fyrir íslensk fyrirtæki’. Þú getur sótt skjalið í heild hér eða kynnt þér efni kaflanna hér að neðan:

Kröfufjármögnun sem valkostur

Mikilvæg atriði sem hafa ber í huga við lántöku

Lántökumöguleikar

Útfærsla Kríta á kröfufjármögnun